Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma
Markmið SVIÐ-rannsóknarinnar (Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma) er að kanna hvernig einstaklingar breyta eða viðhalda framburði sínum á lífstíð sinni og hversu stóru hlutverki meðvituð og ómeðvituð viðhorf til máls gegna þegar kemur að því að útskýra slíkar málfarsbreytingar í rauntíma. Þetta er hægt að gera vegna þess hversu vel þróun þessa hljóðfræðilega breytileika hefur verið rannsökuð. Lýsandi markmið verkefnisins er að kortleggja núverandi stöðu svæðisbundins framburðar á landinu á þann hátt að hægt sé að bera niðurstöðurnar markvisst saman við niðurstöður fyrri yfirlitsrannsókna. Því voru þátttakendur úr fyrri rannsóknum einnig teknir með í þessari rannsókn til að tryggja ákveðna samfellu í rauntíma. Fræðilegt markmið verkefnisins er að varpa ljósi á það hvernig viðhorf hafa áhrif á framburðarþróun, bæði einstaklinga og innan málsamfélaga.
Gögnunum í þessari rannsókn er safnað í tveimur megináföngum. Sá fyrri fól í sér netkönnun sem stýrt var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og er nú lokið. 3000 mögulegir málhafar um allt land fengu senda könnun sem þeir voru beðnir um að taka þátt í svo að hægt væri að fá gott yfirlit yfir stöðuna á svæðisbundnum framburðartilbrigðum á Íslandi auk upplýsinga um viðhorf fólks gagnvart framburðartilbrigðunum. Þátttakendur voru í fyrsta lagi beðnir um að taka þátt í framburðarprófi, í öðru lagi að hlusta á upptökur af málhöfum með framburðareinkenni kennd við aðra landshluta en þann sem þeir eru sjálfir frá og í þriðja lagi að bregðast við upptökunum með því að svara spurningalista um viðhorf þeirra gagnvart upplesaranum, auk þess sem þeir áttu að svara spurningalista varðandi viðhorf þeirra og upplifun af eigin framburði. Reynt var að ná í þrjá jafnstóra hópa. Sá fyrsti samanstóð af 1000 unglingum (12–20 ára) sem valdir voru af handahófi, sá næsti af 1000 þátttakendum sem höfðu sem unglingar tekið þátt í sambærilegri rannsókn á níunda áratug síðustu aldar, Rannsókn á íslensku nútímamáli (RÍN), eða í rannsókn Björns Guðfinnssonar (BG) á fimmta áratug síðustu aldar, og sá þriðji samanstóð af 1000 manna handahófsúrtaki úr Þjóðskrá, 12 ára og eldri.
Seinni megináfangi gagnasöfnunarinnar snýr að því að kanna möguleg áhrif viðhorfa á þróun svæðisbundnu tilbrigðanna sem valin voru. Haft var aftur samband við 160 manna úrtak úr þátttakendahópi fyrri áfangans, þ.e. netkönnunarinnar, og þeim boðið í djúpviðtal þar sem hægt var að kafa dýpra í viðhorf þátttakendanna og skynjun þeirra á eigin framburði svo og framburði annarra. Með greiningu þeirra má svo meta hvernig viðhorf gætu hafa leitt til þess að málhafar annaðhvort markvisst varðveittu eigin framburðareinkenni eða lögðu þau af. Úrtak þessara þátttakenda er að hluta til fyrrum þátttakendur, þ.e. þátttakendur úr RÍN og jafnvel úr rannsókn BG, og spanna því gögnin í sumum tilfellum hátt í 80 ára lífshlaup. Þessir þátttakendur eru hvaðan af landinu og ýmist búa enn á uppeldissvæði sínu eða fluttu burt, flestir til höfuðborgarsvæðisins, síðan á tímum RÍN og BG. Hluti úrtaksins er einnig unglingar og ungmenni svo hægt verði að halda áfram í framtíðinni rannsóknum um lífstíðarbreytingar varðandi framburð og viðhorf.
Fréttir og viðburðir
Lokaráðstefna rannsóknarverkefnisins
Lokaráðstefna rannsóknarverkefnisins „Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma“ verður...
NánarRaddaður framburður á undanhaldi en harðmæli heldur
Ólíkt því sem stundum heyrist í samfélagsumræðunni eru tungumál ekki...
NánarErindi á ráðstefnu um félagsmálvísindi
Flutt voru tvö erindi á vegum SVIÐ-verkefnisins á ráðstefnunni Changes,...
NánarMálstofa á Hugvísindaþingi 8. mars 2024
SVIÐ-rannsóknin hélt málstofu á Hugvísindaþingi þann 8. mars 2024 í...
Nánar