Þátttakendur
Aðalrannsakendur
Ásgrímur Angantýsson er prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hann, ýmist einn eða í samstarfi við innlenda og erlenda málfræðinga, m.a. fjallað um tilbrigði í íslenskri og færeyskri setningagerð, málvíxl og málsambýli íslensku og ensku, hljóðkerfislegan breytileika í íslensku, aðferðafræði setningafræðirannsókna og íslensku sem námsgrein í skólakerfinu. Hann hefur sinnt fræðilegri ritstjórn og birt fjölda ritrýndra bókarkafla og tímaritsgreina á vettvangi íslenskra og norræna málvísinda.
Finnur Friðriksson er dósent við hug- og félagsvísindasvið við Háskólann á Akureyri. Hann sérhæfir sig helst í tilbrigðum í máli ungmenna út frá félagsmálvísindalegu sjónarhorni. Hann hefur m.a. unnið að rannsóknum um unglingamál á samfélagsmiðlum og um íslenskt mál og kyn. Hann hefur einnig skrifað fræðigreinar um aðferðafræði í félagsmálvísindum, þá einna helst um viðtalsaðferðir. Hann var meðal rannsakenda í rannsóknarverkefninu Íslenska sem námsgrein og kennslutunga (ÍNOK) og var meðhöfundur fjölda kafla í ritrýndri bók sem afurð verkefnisins. Hann sat einnig í verkefnastjórn RANNÍS-verkefnisins Íslenskt unglingamál: rannsókn á samskiptaaðferðum í raungögnum.
Alþjóðlegir samstarfsaðilar
Nicole Dehé er prófessor í málvísindum við Háskólann í Konstanz í Þýskalandi. Hún hefur unnið að fjölmörgum rannsóknum um hljómfall í íslensku, sérstaklega um tónfall og hljómfall í setningum. Hún hefur þar af leiðandi fjallað um efnið í ýmsum fræðigreinum og á ráðstefnum. Nicole stýrir þriggja ára rannsóknarverkefni (2021–2024) ásamt Christiane Ulbrich sem er styrkt af Rannsóknarsjóði Þýskalands (DFG) um hljóðkerfisfræði í íslensku sem annað mál og sem erfðamál (t.d. vesturíslenska). Hún hefur einnig haft stöðu aðjunkts í Íslensku- og menningardeild við Háskóla Íslands síðan árið 2016.
Gunnar Ólafur Hansson er dósent í málvísindum við University of British Columbia (UBC) í Kanada. Meðal sérsviða hans er fræðileg hljóðkerfisfræði, snertifletir orðmyndunar- og hljóðkerfisfræði og hljóð- og hljóðkerfisfræði, söguleg hljóðkerfisfræði og orðmyndunarfræði og gerð tölfræðilegra líkana. Hann hefur rannsakað fjölda tungumála, þ. á m. norræn eyjamál (íslensku og færeysku), finnsk-úgrísk mál (sérstaklega norður-samísku), norður-athabaskísk mál (Tsilhqot’in/Chilcotin, Dakelh/Carrier, Kaska) og jókútsamál (e. Yokutsan) (Yowlumne/Yawelmani). Gunnar hefur stýrt ýmsum rannsóknarverkefnum á sviði málvísinda og leiðbeint fjölda framhaldsnema, þ. á m. sex doktorsnemum hafa þegar lokið við gráður sínar.
Kristín M. Jóhannsdóttir er dósent við kennaradeild í Háskólanum á Akureyri. Sérsvið hennar er tíð, horf og háttur í íslensku og vesturíslensku, en einnig staða og notkun íslenskunnar í Vesturheimi. Hún er meðlimur í rannsóknarteyminu LAMUC, Languages in the multicultural classroom.
Nýdoktorar
Stefanie Bade er aðjunkt við íslensku- og menningardeild í Háskóla Íslands. Hún hefur rannsakað viðhorf Íslendinga gagnvart íslensku talaðri með erlendum hreim og hún hefur fengist við að útskýra bæði meðvituð og ómeðvituð viðhorf, auk þess að skoða stöðu íslensku með hreim innan íslensks málsamfélags. Hún hefur einnig kannað viðhorf nemenda í íslensku sem öðru máli gagnvart kennurum sem tala íslensku að móðurmáli eða sem annað mál við Háskóla Íslands og hefur tekið þátt í fjölda rannsóknarverkefna. Hún starfar við SVIÐ-verkefnið sem nýdoktor og vinnur að úrvinnslu og greiningu viðtalanna og túlkun niðurstaðna.
Rannsakendur
Margrét Guðmundsdóttir hefur helst rannsakað lífstíðarbreytingar í íslenskum framburði. Hún hefur rannsakað ítarlega gögn Björns Guðfinnssonar frá fimmta áratug síðustu aldar með sérstöku tilliti til svæðisbundinna framburðartilbrigða en nýlega hefur hún einnig hafið rannsóknir á öðrum tilbrigðum. Markmið hennar er að finna eins nákvæmar upplýsingar og kostur er á um tíðni mismunandi tilbrigða, bæði út frá einstaklingum en einnig útbreiðslu innan tiltekinna landssvæða, til að veita frekari möguleika á samanburði gagnanna við rannsóknir framtíðarinnar.
Ása Bergný Tómasdóttir lauk meistaraprófi í almennum málvísindum við Háskóla Íslands árið 2024. Í meistararitgerð sinni vann hún með viðtalsgögn úr SVIÐ-rannsókninni og rannsakaði alþýðuhugmyndir (e. folk beliefs) málnotenda um svæðisbundin framburðartilbrigði í íslensku. Í vinnu sinni í SVIÐ-verkefninu hefur Ása haldið áfram að greina eigindleg og megindleg gögn sem snerta viðhorf og hugmyndir þátttakenda um framburðartilbrigði og íslenskt mál yfirhöfuð. Hún hefur einkum áhuga á því að rannsaka eðli og forsendur slíkra málviðhorfa en einnig tengsl þeirra við mál þátttakendanna sjálfra og breytingar/stöðugleika í framburði, hjá einstaklingum sem og í íslensku málsamfélagi almennt.
Eva Hrund Sigurjónsdóttir lauk meistaraprófi í almennum málvísindum við Háskóla Íslands árið 2024. Í meistararitgerð sinni kannar hún útbreiðslu nýjungar í íslenskum framburði sem hefur verið nefnd höggmæli og notast hún þar við gögn úr SVIÐ-rannsókninni með samanburði við niðurstöður RÍN. Helsta hlutverk Evu innan verkefnisins hefur verið að kannað útbreiðslu og tíðni ýmissa framburðarafbrigða í gögnum rannsóknarinnar og haldið utan um samantekt niðurstaðna og tölfræðiúrvinnslu. Hún hefur einnig sinnt verkefnastjórn með úrvinnslu gagna úr hljóðkerfishluta rannsóknarinnar.
Framhaldsnemar og aðstoðarmenn rannsóknar
Kolbeinn Héðinn Friðriksson er BA-nemi í almennum málvísindum. Hann hefur unnið við hlustun, greiningu og afritun viðtala innan SVIÐ-verkefnisins. Hann hefur einnig unnið sem aðstoðarmaður við að afrita upplýsingar úr frumgögnum Björns Guðfinnssonar sem varðveitt eru á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.
Magnús Már Magnússon lauk BA-prófi í íslensku við Háskóla Íslands árið 2024. Hann hefur unnið við hlustun, greiningu og afritun viðtala innan verkefnisins. Í BA-ritgerð sinni ber hann saman verk Halldórs Laxness og Þórbergs Þórðarsonar.
Ragnhildur Ósk Sævarsdóttir er í meistaranámi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Hún starfaði einnig hjá rannsóknarstofunni Mál og tækni árin 2020–2021. Ragnhildur er ein þeirra sem tók viðtöl við þátttakendur í SVIÐ-rannsókninni sumarið 2024.
Salome Lilja Sigurðardóttir lauk meistaraprófi í almennum málvísindum við Háskóla Íslands árið 2023. Hún hefur unnið að rannsóknum um málnotkun unglinga og málbreytingar í rauntíma. Salome vann við skipulagningu og framkvæmd djúpviðtala við þátttakendur í SVIÐ-rannsókninni sem höfðu einnig tekið þátt í rannsókn Björns Guðfinnssonar á fimmta áratug síðustu aldar.
Ráðgjafar verkefnisins
Höskuldur Þráinsson er prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í almennum málvísindum við Harvard-háskóla árið 1979. Hann er með helstu fræðimanna á sviði setningafræði norrænna eyjamála og íslenskra mállýskna og hljóðkerfisfræði. Meðal sérsviða hans eru tilbrigði innan tungumála og málbreytingar, erfðamál (sérstaklega vesturíslenska) og málfræðistol. Hann er SVIÐ-verkefninu innan handar sem sérstakur ráðgjafi vegna gagnasöfnunar með tilliti til málbreytinga í rauntíma.
Kristján Árnason er prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í almennum málvísindum við Edinborgarháskóla árið 1977. Hann er meðal helstu fræðimanna á sviði samtímalegrar og sögulegrar hljóðkerfisfræði norrænna eyjamála. Meðal sérsviða hans er hljómfall, tónfall, íslensk félagsmálvísindi, málstefna og málstöðlun. Hann er rannsakendum SVIÐ-verkefnisins innan handar sem sérstakur ráðgjafi vegna gagnasöfnunar og túlkunar niðurstaðna hljóðkerfishluta rannsóknarinnar.
Eva Sundgren er prófessor emeritus í sænsku með sérstakri áherslu á félagsmálvísindi í Háskólanum í Mälardalen í Eskilstuna í Svíþjóð. Meðal sérsviða hennar eru tilbrigði innan tungumála og málbreytingar, mál og kyn og viðhorf gagnvart tungumálum. Hún lauk doktorsprófi árið 2002 og ber ritgerðin hennar heitið Continuity and Change in Present-Day Swedish: Eskilstuna Revisited. Doktorsverkefnið hennar er með fyrstu rauntímarannsóknunum af sinni stærðargráðu og þar vinnur hún bæði með hóprannsóknir og stefnurannsóknir. Hún er SVIÐ-verkefninu innan handar sem sérstakur ráðgjafi vegna rauntímarannsókna.
Bragi Guðmundsson er prófessor í sagnfræði við hug- og félagsvísindasvið í Háskólanum á Akureyri. Á síðustu árum hefur hann að mestu leyti stundað rannsóknir á íslenskri skólasögu og á grenndarfræði og notkun hennar í kennslu. Hann veitir rannsakendum SVIÐ-verkefnisins ráðgjöf varðandi samspil einstaklingsbundinna, staðbundinna og samfélagslegra sjálfsmynda og viðhorfa gagnvart tungumálum.