Ólíkt því sem stundum heyrist í samfélagsumræðunni eru tungumál ekki fasti heldur taka stöðugum breytingum. Þær geta t.d. orðið vegna tíðandaranda og krafna samfélagsins, tilhneigingar til að einfalda málkerfið eða áhrifa annarra tungumála. Slíkar breytingar ná líka til þess hvernig við berum orðin fram og um þessar mundir vinnur Ásgrímur Angantýsson, prófessor í íslenskri málfræði, að spennandi rannsókn ásamt stórum hópi fræðafólks á því hvernig tilbrigðum í framburði hér á landi hefur reitt af á síðustu áratugum.
„Rannsóknin snýst aðallega um stöðu og þróun svæðisbundinna framburðareinkenna á Íslandi og viðhorf til þeirra en við höfum líka auga með vísbendingum um nýjungar í framburði,“ útskýrir Ásgrímur sem stýrir rannsókninni ásamt Finni Friðrikssyni, dósent við Háskólann á Akureyri.